144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum þá ekki gleyma hinu að iðrunin er undirstaða fyrirgefningarinnar. Það verður þá að koma alveg skýrt fram að viðkomandi iðrist. Ég er í sjálfu sér ekki að mæla gegn því og eins og hv. þingmaður tók eftir hef ég ekki sett fram neina sérstaka skoðun á því. Hins vegar fari ég með rétt mál og muni það réttilega var það þannig til dæmis í Þýskalandi að mönnum var gefinn kostur á að koma og greina sjálfir frá því að þeir hefðu gerst sekir um undanskot ef þeir gerðu það fyrir tiltekinn tíma. Þá voru gefnar upp sakir en þurftu að borga háar sektir. Ég tel að eitthvað svoleiðis komi alveg til greina í samfélagi okkar. En þeir sem ekki notfæra sér slíkan frest en eru eigi að síður á slíkum listum, þá er það nú kannski erfitt út frá sjónarhóli réttvísinnar að fyrirgefa þeim jafnvel þó að menn vilji, þeir verða að sýna þá iðrun sem felst (Forseti hringir.) í því að koma fram.