144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 10. þm. Suðurk. kærlega fyrir mjög góða ræðu. Það er alltaf gaman að hlusta á hann tala frá hjartanu hér í pontu eins og hann gerir svo gjarnan.

Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann fór aðeins inn á vinnubrögðin við fjárlagagerðina. Nú hef ég af og til gert það að leik mínum að ætla að kynna mér hvert einasta þingmál sem hér er til umfjöllunar, ýmist í nefnd sem ég er í, ég er í þremur reyndar, eða á þingfundi. Ég hef komist að því að þetta er ekki hægt til lengdar, það er ekki hægt, það er einfaldlega of mikið.

Þegar ég fór að taka upp á þessu snemma í haust þá fór ég eftir smástund að átta mig á því að ég var að kynna mér mál sem kæmust á dagskrá en ekkert endilega til umræðu. Ég hef því kynnt mér fjöldann allan af þingmálum sem ég verð löngu búinn að gleyma öllu um þegar þau loksins koma til umræðu.

Þetta finnst mér til marks um skipulagsleysið hér á Alþingi sem ég tel reyndar að sé (Forseti hringir.) ekki neinum einum að kenna — vá, þessi tími, hann líður svo hratt. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti útskýrt það betur fyrir okkur hvernig hann mundi kjósa að sjá betra vinnulag hér? (Forseti hringir.)