144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:40]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna, þetta er nú svolítið stór spurning. Ég held að við getum alveg bætt vinnubrögðin með því að tala betur saman og það þarf að breyta þingsköpum.

Ég hlustaði á mjög athyglisverðan fyrirlestur í hádeginu í gær uppi í háskóla, um umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum, þar sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur benti á að við þyrftum meðal annars að breyta þingsköpum til að bæta umræðuhefðina og skipulagið á þingi.

Manni finnst stundum alveg ótrúlegt hvernig þetta gengur áfram, gengur hægt, gengur illa, mörg mál daga uppi í nefndum og verður ekkert úr. Ég upplifði það sjálfur á síðasta þingi með mitt mál sem aldrei kom til umræðu, svo kom bara í ljós að enginn hafði áhuga á að ræða það. Þetta var mjög skrítið og maður bara veltir fyrir sér: Af hverju er þetta svona?

Mér finnst tíminn oft knappur og til dæmis er ekkert þing á föstudögum. Mér finnst við ættum að geta breytt þessu til hins betra en við gerum það bara með því að tala betur saman og velta því fyrir okkur hvernig hægt er að hafa þetta sem skilvirkast.