144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel reyndar að það þurfi meira en að breyta þingskapalögum og meira en að við ræðum saman. Fyrst við erum að tala um fjárlög þá sat ég í fjárlaganefnd á síðasta þingi og var þar áheyrnarfulltrúi, komst reyndar ekkert oft á fundi vegna þess að velferðarnefnd fundar á sama tíma, sem ég var einnig í og er enn þá í, og komst ekki vegna þess að ég var líka í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. En ég man það mjög vel og mér skilst að það sé enn þá þannig að menn fái upplýsingar á alls kyns sniði, það er allur gangur á því, jafnvel bara á pappír.

Mér hefur oft fundist erfitt að vinna með gögnin sem við notumst við hér. Oft er erfitt að klóra sig í gegnum gögn vegna þess að þau eru á mismunandi sniði eða vegna þess að þau eru sett fram með misjöfnum hætti, eða í misjöfnu samhengi. Þetta finnst mér oft gera vinnuna erfiðari en hún þyrfti að vera ella. Þess vegna velti ég fyrir mér hvað þingmaðurinn meini, þegar hann talar um fjárlögin sérstaklega, nákvæmlega, hvernig hann telji best (Forseti hringir.) að útfæra málin þannig að auðveldara sé fyrir okkur, þingmenn alla, að vinna saman utan hv. fjárlaganefndar einnig.