144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að óska mér þess í huga mínum að ég gæti fengið eina umferð í viðbót i andsvörum við hv. 10. þingmann Suðurkjördæmis vegna þeirra orða sem hann lét falla um aukið samráð við þjóðina og aðra hagsmunaaðila þegar kemur að fjárlögum. Nú er það þannig að sóst er eftir umsögnum um þingmál og hver sem er getur sent inn umsagnir um hvaða þingmál sem er. Það eru margir sem vita þetta ekki, en það er hægt og það er gott. Það er ákveðið gagnsæi til staðar þótt að mínu mati sé það ekki næstum því nógu mikið. Þá er eðli vinnunnar þannig að það mætti vera miklu auðveldara og einfaldara að reikna út hluti, bera þá saman o.s.frv. Þegar maður lítur á fjárlagavinnuna þarf maður að takmarka sig við vinnubrögð þar sem tölvutækni sérstaklega er ekki nýtt mjög vel eða maður þarf að yfirfæra gögn yfir í önnur snið, excel-skjöl, einhvern sérsmíðaðan hugbúnað o.s.frv. til þess að geta unnið með þau almennilega. Það er alla vega mín takmarkaða reynsla af fjárlagagerð, en eins og áður kom fram er ég ekki lengur í fjárlaganefnd.

Um fjárlagafrumvarpið efnislega langar mig að tala sérstaklega um eina af þeim hugmyndum sem minni hlutinn hefur sett fram en hún er sú að auka fjárveitingar til Útlendingastofnunar um 50 millj. kr. Mér þykir mjög brýnt, mjög mikilvægt að gera þetta. En mér finnst ekki að það sé í raun og veru hægt að tala um Útlendingastofnun án þess að tala aðeins um útlendinga- og innflytjendamál.

Ég er á þeirri skoðun að ein vannýttasta auðlind Íslands sé fólk. Ég held að Ísland þurfi á fleira fólki að halda, ég held að það þurfi fjölbreyttara mannlíf, fjölbreyttari menningu, og mér hefur fundist útlendingastefnan hérlendis einkennast af hugsunarleysi. Mörgum finnst auðvelt að tala illa um útlendingalög eða Útlendingastofnun, það er talað um að þau hati útlendinga og eitthvað slíkt, sem ég trúi nú reyndar ekki. En ef maður hefur smáreynslu af málum útlendinga, hefur hjálpað fólki að sækja um dvalarleyfi og atvinnuleyfi og því um líkt eða kynnst málum flóttamanna eða hælisleitenda sér maður mjög fljótt að þessi lög eru hönnuð til að halda fólki úti. Útlendingalög eru skrifuð til þess að halda fólki úti. Það er meginlínan, það er meginstefnan, að fólk megi ekki koma hingað, flytja hingað og vera hérna og lifa og vinna, nema í einstaka undantekningartilfellum. Þá er það alltaf undir kringumstæðum sem er búið að niðurnjörva og passa mjög vel að það sé bara fólk sem við högnumst á því að hafa, t.d. bara fólk með sérfræðiþekkingu. Jú, það má svo sem búa hérna ef það þekkir einhvern en bara ef það eru mjög nánir fjölskylduvinir, helst börn — bara undir þessum og hinum kringumstæðum. Þetta er viðhorf sem einkennir útlendingalögin. Þetta er ekki Útlendingastofnun að kenna, hún vinnur auðvitað eftir lögum af bestu sannfæringu, (Gripið fram í.) fyrir utan það að hún er eins og aðrar stofnanir á Íslandi fjársvelt. Þess vegna fagna ég þessari 50 millj. kr. aukafjárveitingu til Útlendingastofnunar.

Ég tel að fólk sé mjög vannýtt auðlind, einfaldlega fólk. Það gerir okkur öll ríkari, ekki bara efnahagslega heldur menningarlega. Eftir að hafa búið í Vesturheimi, í Kanada, í tvö og hálft ár, er ég algerlega sannfærður um að mesta ríkidæmi Kanada og ég þori að fullyrða Bandaríkjanna líka er að þeir hafa tekið á móti útlendingum og ekki bara leyft þeim að setjast að heldur hvatt þá til þess að setjast að. Fólk er auður. Hérlendis er það alltaf þannig að leyfin eru skilyrt og þau eru oft skilyrt mjög undarlega og líka óljóst, mikið af þessu er einhver pappírsvinna. Þetta er jú hópur sem fær almennt ekki kosningarétt fyrr en eftir mjög langa veru hér. Það er því kannski ekki mikill pólitískur þrýstingur á því að laga þessi mál. En eitt það allra vitlausasta sem ég veit um er að meina fólki að vinna. Það er nefnilega eitt svo skrýtið við andúð gagnvart útlendingum; það er alveg sama hvað útlendingar gera, þeir eru alltaf vondi kallinn. Ef þeir koma hingað og vinna ekki, þá eru þeir aumingjar sem lifa á kerfinu. Ef þeir koma hingað og vinna og taka þátt í efnahagslífinu eru þeir að stela allri vinnu.

Þessi tvískinnungur sem maður upplifir í umræðunni undirstrikar að mínu mati mjög vel það hugsunarleysi sem útlendingalög eru byggð á á Íslandi. Þetta er bara hugsunarleysi. Við höfum aldrei sest niður og ákveðið eftir heildstæða rökræðu hvernig við ætlum að hafa innflytjendastefnuna. Við höfum aldrei gert það, nema auðvitað fyrir löngu síðan og þá út frá formerkjum sem byggja aðallega á því að halda fólki úti. Það er alltaf á einhvern hátt í fyrsta sæti, að passa að við getum haldið fólki úti, hleypa því alls ekki inn í landið og leyfa því að vera hérna til lengri tíma, nema það sanni fyrir okkur að vera þeirra hér sé í samræmi við okkar hagsmuni, ekki hagsmuni þess fólks. Við lítum gjarnan ekki á það fólk eins og það sé einstaklingar með eigin drauma og þrár og eigin réttindi, fólk sem er bara ágætt. Þegar fólk talar um útlendinga í sambandi við vinnumarkaðinn, að þeir steli vinnu Íslendinga eða taki vinnuna, er það byggt á þeim reginmisskilningi að atvinna sé tæmandi auðlind. Atvinna verður til við það að einhver þarf þjónustu eða vöru. Því meira sem er af fólki því meira skapast af þörf. Því meira sem er af fólki því meira er af vinnu, þannig að útlendingar búa til störf, vegna þess að útlendingar og innflytjendur koma hingað og þurfa sömu hluti og Íslendingar upp til hópa, nema auðvitað að þeir hafi vanist því að búa við lakari skilyrði sem er kannski þá lexía sem Íslendingar mættu læra eitthvað af. Ég fagna því mjög þessum aukapeningum til Útlendingastofnunar.

Það þekkja það allir sem þekkja marga útlendinga á Íslandi að það getur tekið óralangan tíma að fá hlutina afgreidda. Á meðan fólk er að bíða eftir niðurstöðu, hvort sem það er dvalarleyfi til fjölskyldusameiningar eða til atvinnuleyfis, ég tala nú ekki um ef maður er að reyna að fá stöðu flóttamanns, sem hefur tekið allt að tvö ár, er framtíðin óljós. Fólk áttar sig ekki á því hvað það er vont að vera í landi sem maður tilheyrir ekki sem ríkisborgari og ætlar að setjast þar að, helst varanlega, alla vega til lengri tíma, og vita ekki hvort maður megi það. Þá er öll framtíðin bara á pásu, þannig er það. Ég þekki þetta af því að ég upplifði það í Kanada. Áður en maður fékk tilskilin leyfi og var að standa í öllu þessu pappírsbrasi vissi maður ekkert hvernig framtíðin yrði, kannski þyrfti maður að umturna lífi sínu aftur. Það er ekki góð tilfinning, slík óvissa er reyndar gjörsamlega óþolandi. Oft og tíðum eru þessi tímabil einnig þannig að fólk má ekki vinna á sama tíma, sem býr auðvitað bara til fleiri vandamál. Þetta gagnast engum, það er enginn sem hagnast á þessu. Ekki íslenskt atvinnulíf, ekki íslenskur efnahagur, vissulega ekki íslensk menning, svo mikið er víst. Þess vegna er mikilvægt að þessar umsóknir, hvers eðlis svo sem þær eru, taki ekki of langan tíma.

Núna búum við á svo skemmtilegum tímum. Fólk er alltaf að ferðast meira og meira og það eru sterkari tengingar á milli landa. Það er fólk úti í heimi, í Kanada og víðar, sem lærir íslensku bara af því að þeim finnst það skemmtilegt tungumál og rakst á eitthvert Youtube-vídeó og fannst fyndið að segja hnífur og tala á innsoginu og allt þetta. Það ákveður að kynnast þessu furðulega tungumáli og þessari furðulegu menningu okkar. Þetta er ríkidæmi sem við höfum og getum alveg nýtt. En þá þarf fólk að mega koma hingað. Maður þekkir fólk sem hefur flutt hingað bara vegna þess að það vill búa hérna, en er ekki sérfræðingar, það á ekki nána fjölskylduvini hérna. Þá má það ekki vera hérna. Það fær kannski að vera hérna í þrjá mánuði, er kannski í skóla í eitt ár, fær kannski einhvers konar leyfi í takmarkaðan tíma út frá forsendum sem síðan eru ekki varanlegar og þá er bara sagt: Bæ, bless, líf þitt hérna er búið, farðu og búðu til nýtt líf annars staðar. Þetta er raunveruleikinn í dag. Þetta er algjörlega ótækt. Það að þetta sé vegna fjárskorts, vegna þess að það taki svo langan tíma að afgreiða hlutina, er gjörsamlega ótækt.

Þegar ég íhuga fjármál ríkisins og þegar fjármál ríkisins eru þannig að við skuldum 1.500 milljarða þarf maður að spyrja sig mjög alvarlega hvort það sé þess virði að fá fé lánað til aukinna fjárútláta. Það er spurning sem ég spyr mig oft. Ef við ætlum að láta 50 millj. kr. fara til Útlendingastofnunar, er það þess virði að fá þær lánaðar? Og svar mitt er já. Oft er svarið nei, en þarna er það tvímælalaust já vegna þess að við erum að tala um réttindi og framtíð fólks, fyrir utan að þetta er góð fjárfesting, þetta er hin prýðilegasta fjárfesting. Ég fullyrði það hiklaust að við spörum pening þegar allt kemur til alls með því að hafa ekki fólk í lausu lofti til lengri tíma, vegna þess að það er svo mikil pappírsvinna og lögfræði að vaða í gegnum til að ákveða hvort fólk megi vera hér á landi eða ekki.

Annað sem ég fagna mjög mikið í tillögum minni hlutans og er mjög ánægður með eru aukin framlög til barna- og unglingageðdeildar Landspítala. Það er augljóst að kerfið ræður ekki við þann vanda sem ungt fólk eða unglingar eiga við að etja ef þeir eru með einhvers konar geðsjúkdóma, geðfráhvörf eða geðrænar raskanir. Það er líka vegna fjárskorts eins og reyndar víða ef ekki hreinlega alls staðar í kerfinu.

Um daginn kom upp hið svokallaða byssumál, lögreglan vildi fá byssur og hafði keypt þær eða fengið þær gefins, eftir því hvernig maður lítur á það að því er virðist. Það á eftir að koma betur í ljós allt sem það varðar. En við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd fórum á fund ríkislögreglustjóra. Þar var farið yfir hræðilega ógn sem lögreglan kallar fjöldadráp. Þessi atvik eiga sér stað af og til erlendis og ég held að allir viti hvað ég er að tala um, þetta er þegar mjög ungt fólk tekur sér vopn í hönd og drepur fullt af fólki. Þegar á fundinn leið varð augljóst að menn ætluðu að setja þetta í samræmi við þessi vopnakaup. Og þá var svo glæsilegt sem hv. 5. þm. Norðvesturkjördæmis, Guðbjartur Hannesson, sagði, tók strax til máls um það atriði: Við eigum ekki að leysa þessi vandamál með fleiri byssum, guð minn góður. Við eigum að reyna að fyrirbyggja þessi vandamál. Það er aldrei hægt að segja aldrei, það er aldrei hægt að segja að þetta gerist aldrei en það er hægt að minnka líkurnar á því. Við minnkum líkurnar á því með því að búa vel að unglingum sem eiga við einhvers konar geðraskanir að stríða. Við gerum það ekki núna og það er bara vegna fjárskorts eða að miklu leyti vegna fjárskorts. Því fagna ég tillögum um að auka þetta framlag.

Ég get tengt þetta mál við útlendingamálin líka. Ég kynntist lítillega nýlega hjónum frá stríðshrjáðu landi. Þau eru hérna með syni sína sem eiga mjög erfitt eftir það sem þeir upplifðu í sínu heimalandi, stríðshrjáðu landi. Það er hryllingur sem ég ætla ekki að lýsa hér. Þegar kemur að því að eignast vini t.d., við erum að tala um ellefu, tólf ára stráka, og pabbinn spyr: Af hverju eignastu ekki einhverja vini? Hann segir: Ég vil ekki missa fleiri vini. Þetta eru unglingar á viðkvæmasta aldri og eiga við vandamál að stríða sem Íslendingar sem betur fer geta sjaldnast einu sinni ímyndað sér. Og það er að mínu viti algjörlega til skammar að við lítum ekki á það sem forgangsatriði að börn og unglingar hafi aðgang að viðunandi sérfræðiþekkingu og þeirri alúð sem þarf til að eiga við sum af þeim erfiðustu vandamálum sem manneskjur geta átt við að stríða, sem eru ýmis form af geðrænum kvillum.

Ég sé í sjálfu sér ekki að ég þurfi að ræða mikið meira um það, ég tel þann punkt vera nægilega skýrt kominn fram. Það þarf aukið fjármagn til Útlendingastofnunar og vissulega í að meðhöndla vandamál unglinga með geðræn vandamál.

Þá langar mig að nefna frumvarp sem er einnig hér til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég hef nefnt þetta áður en ég vil ítreka það. Það er frumvarp um framhaldsskóla, rafræn námsgögn og heimildir til gjaldtöku. Því meira sem ég hugsa um það því meira verð ég á móti þeirri ráðstöfun í því frumvarpi að heimila gjaldtöku fyrir námsgögn. Það er ekki bara vegna þess að ég er óttalegur menntakommi, eins og ég hef oft stært mig af því að vera, ég er afskaplega hrifinn af því að fjárfesta í menntun og ekkert endilega einni tegund af menntun heldur menntun almennt. Menntun er næstum því ótæmandi auðlind. En það sem stingur í augu við þetta frumvarp er að í því á að heimila gjaldtöku í tilraunaskyni fyrir námsgögn. Það þykir mér svolítið sérstakt. Ef maður ætlar að gera tilraun þarf auðvitað að byggja hana á þeim forsendum sem maður ætlar að hafa til frambúðar, þannig að ég trúi því ekki að þessi gjaldtaka eigi að vera tímabundin, ég trúi því ekki. Þetta er nýmæli í íslenskum lögum að það sé heimild til gjaldtöku og hugsunin er að þetta sé tímabundið en ég hreinlega trúi því ekki vegna þess að við erum að tala um rafræn námsgögn. Rafræn námsgögn er eðli málsins samkvæmt hægt að afrita. Höfundar hafa gefist upp á þeirri annars þeirri metnaðarfullu hugmynd að afritunarverja t.d. rafræn námsgögn. Það er ekki raunhæft án þess að pirra lögmæta notendur meira en ólögmæta, þegar allt kemur til alls. Við getum því gefið okkur, fyrst menn eru réttilega búnir að gefast upp á afritunarvörnum í þeim efnum, að nemendur muni fá þetta „lánað“ hver hjá öðrum. Það þýðir að tekjurnar skila sér ekki til höfunda. Og það þýðir að tilraunaverkefnið klúðrast og er ekki samkvæmt þeim formerkjum og það væri ef við mundum ákveða að ríkið skyldi borga þetta. Sömuleiðis held ég ekki að það sé raunhæft að ætla að núna lagist einhvern veginn höfundarréttarmál sjálfkrafa. Ef við ætlum að tryggja að höfundar fái greitt fyrir sína vinnu þá þurfum við að mínu mati að gera það með öðrum hætti en að stóla einfaldlega á að allir sjái sér hagsmuni í að borga. Það virkar ekki þannig, alla vega ekki enn þá. Kannski gerir það það einn daginn en það er ekki þannig núna og verður ekki á meðan á þessu tilraunaverkefni stendur.

Ég tel það ofboðslega mikilvægt, ef við ætlum ekki að breyta því varanlega hver fjármagnar námsgögn og hvernig, að rafræn námsgögn verði borguð af yfirvöldum. Það er kostnaður, talsverður kostnaður t.d. miðað við það sem við setjum í Útlendingastofnun og BUGL. Áætlaður kostnaður er 1,6–1,9 milljarðar. Það munar um minna. En að mínu mati er þetta mikilvægt, því að hér kem ég að lokapunktinum sem ég vil nefna í því sambandi og það er blessuð íslenska tungan. Íslenska tungan mun ekki geta lifað af hvaða tækniþróun sem er eða hvaða menningarlegu þróun sem er nema ef við gerum ráðstafanir til þess að verja hana. Mér þykir þetta pínlega augljóst. Ég tel það mikilvægt að námsgögn séu til á íslensku. Það fylgir því að einhver þarf að fá borgað fyrir að gögnin séu íslenskuð, við verðum að tryggja innlendan markað fyrir íslensk námsgögn. Ég tel ekki að það sé raunhæft að gera það án þess að ríkið kosti það eða að minnsta kosti þannig að greiðslur til höfunda, jafnvel þýðenda ef út í það er farið, séu tryggðar með einhverjum hætti.

Nú eru margir þeirra skoðunar, þar á meðal ég, að nemendur eigi ekki að þurfa að borga fyrir námsgögn sem eru hluti af námi þeirra. Mér finnst að námsgögnin eigi að fylgja. Ég held að það sé ekkert mál fyrir nemendur, sérstaklega á ungum aldri, að réttlæta fyrir sjálfum sér að fá þau lánuð hjá einhverjum öðrum nemanda vegna þess að þeim finnst hreinlega ekki að þeir eigi að borga þetta í samfélagi eins og Íslandi. Þeim finnst hreinlega ekki að norrænt velferðarsamfélag eigi að vera þannig að maður þurfi að borga fyrir námsgögn. Ég held að það sé enn þá meiri hætta á því að menn sniðgangi höfundarrétt þegar kemur að námsgögnum en þegar kemur t.d. að tónlist og kvikmyndum, fyrir utan að þörfin er miklu meiri í því tilfelli. Þetta er ekki bara afþreying, þörfin er miklu meiri, þetta er yfirleitt eitthvað sem fólk þarf með náminu til að vinna að því almennilega. Ég hef því ríkar áhyggjur af þessu og tel það ansi mikilvægt að við kostum þessi námsgögn ef vel á að fara, bæði fyrir íslenska tungu til lengri tíma og sömuleiðis einfaldlega til þess að tilraunin gangi upp. Við getum ekki ætlast til þess að langtímaafleiðingar af allt öðru fyrirkomulagi en því sem við erum að prófa séu þær sömu og af því sem við erum að prófa. Við hljótum að þurfa að gera þessa tilraun á sömu forsendum og við ætlum að hafa hlutina til lengri tíma, annars vitum við ekkert hvað við erum að gera. Þetta er svolítið augljóst þegar maður pælir í því. Ég held ég láti þetta nægja til þess að sýna fram á þann punkt í bili.

Það allra síðasta sem mig langar að nefna er skattrannsóknarstjóri. Í upphaflega frumvarpinu var áformað að skera niður hjá skattrannsóknarstjóra um 27,7 millj. kr. Hv. fjárlaganefnd tók það næstum því allt til baka, hækkaði aftur upp um 26 milljónir og er núna í 297,9 millj. kr. en var 299,6 millj. kr. 2014. Ég hvái svolítið þegar ég sé þetta vegna þess að temmilegur samhugur virðist vera um að þetta fé sé mjög vel nýtt og aukin fjárframlög í þennan málaflokk geti enn þá aflað ríkissjóði tekna. Ég furða mig á því hvers vegna ekki er sett meira í þennan málaflokk, (Forseti hringir.) en sjálfsagt eru einhverjar góðar ástæður fyrir því sem ég treysti að aðrir nefni þá við mig í þessari ágætu umræðu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.