144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísar til hins glöggskyggna fyrrverandi landlæknis, Ólafs Ólafssonar. Ég er aðdáandi hans eins og hv. þingmaður sem segir að Ólafur hafi sagt að það sé þrennt sem skipti máli: Tækjabúnaðurinn, vinnuálagið og launin. Það er rétt.

Ég held að sú taug sem dregur rekka föðurtúna til sé svo sterk, líka hjá íslenskum læknum, að það dugi að einungis einn þessara þriggja þátta sé í ólagi, þeir komi samt heim. Þeir sætta sig við lág laun ef vinnuálagið er bærilegt og ef þeir geta stundað fremstu læknavísindin, en þegar allt þrennt fer úrskeiðis, og það er svolítið þannig núna, þá brestur gólfið. Þetta er auðvitað þar sem skórinn kreppir. En þeir hafa samúð og stuðning fólksins sem vill taka þá fram fyrir, eins og hv. þingmaður hefur bent á í ákaflega mörgum glöggum ræðum hér um þessi mál síðustu daga.