144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Hr. forseti. Hv. þingmaður talar um margar glöggar ræður, þetta er líklega sama ræðan aftur og aftur, en það er oft þannig að maður þarf að segja hlutina oft til þess að þeir heyrist.

Þessi þrjú atriði eru mjög vel til fundin og það eru atriði sem eru ekki til staðar á Íslandi núna. Starfandi landlæknir sagði: Við fórum út á sínum tíma, gamla kynslóðin, við komum aftur af því taugin var sterk. Þótt öll atriðin þrjú væru verri á Íslandi en erlendis komum við samt. En núna eru þau svo miklu verri.

Ég spurði Ólaf Ólafsson, fyrrverandi landlækni, í dag: Hvað er það mikilvægasta sem við þurfum að gera akkúrat núna, hvað er það brýnasta? Hann sagði: Við verðum að semja við lækna. Það er það brýnasta akkúrat núna. Síðan verðum við að taka á hinu þegar fram í sækir.

Það að semja við læknana þýðir alla vega það að við förum ekki að auka vinnuálagið á þá sem eftir eru þegar aðrir læknar fara. Það er strax gott, svo þurfum við að vinna í því að setja meira í tækjakostnað og aðbúnað.