144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Sannarlega, eins og ég sagði í ræðu minni áðan er það í kringum fjárlögin sem hinn stjórnmálalegi ágreiningur birtist. Hann verður mestur og birtist með nöktustum hætti þegar skórinn kreppir að í fjármálum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að núna séum við komin á þann punkt frá kreppu að við hefðum getað, t.d. með því að halda fram þeim tekjuúrræðum sem urðu ofan á í okkar ríkisstjórn, gert afskaplega margt til viðbótar. Við hefðum getað aukið til almenningssamgangna og kannski eitt sem ég veit að er hjarta hv. þingmanns kært, við hefðum getað byrjað að snúa ofan af þeirri öfugþróun sem hefur orðið í greiðsluþátttöku almennings. Það er mjög sláandi að á sama tíma og verið er að fella niður auðlegðarskattinn og lækka veiðigjöld þá skuli tvö ár í röð vera aukin greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu. Í fyrra um 600 milljónir og á þessu ári um 1 þús. milljónir til viðbótar. Þar sést hvar hjartað liggur.