144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um þetta, en svo sannleikanum sé til haga haldið þá bendir hæstv. heilbrigðisráðherra á að hluti af þessari 20% hækkun hafi verið tekinn í formi gjalda sem læknarnir voru þegar farnir að taka af sjúklingum sínum. Engu að síður er þetta umtalsverð hækkun og mikil borið saman við það sem verið er að bjóða læknum í almannaþjónustunni. Þá spyr maður sig: Er verið að reyna að búa í haginn til að beina þeim inn á slíkar brautir? Það felur í sér kerfisbreytingar sem eru alla vega mér ekki að skapi, þótt ég sé ekki andvígur því að hér séu starfandi sjálfstætt starfandi læknar. Spurningin er um blönduna, almannaþjónustu og sjálfstætt starfandi. Ég óttast að verið sé að breyta henni.