144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum ekki á réttri leið. Ég held að því er varðar ýmsa grunnþætti í innviðum samfélagsins þá hafi þeir verið skornir ansi djúpt af þeirri ríkisstjórn sem ég sat í vegna þess að nauðsyn krafðist. Við horfðumst í augu við 230 milljarða gat sem þurfti að stoppa upp í. Árið 2009 náðum við því niður í 170. Síðan var það nánast komið niður í núll þegar sú ríkisstjórn kvaddi. Það kostaði auðvitað fórnir sem allir báru, þar á meðal menntakerfið og heilbrigðiskerfið. En við höfðum líka skýra sýn. Við fylgdum áætlun sem teiknaði sig til þess að árið 2013 værum við komin á þann stað að við gætum byrjað að eyða aftur í uppbyggingu. Þá gerðist það hins vegar að stórum tekjupóstum var kippt til baka, t.d. með lækkun veiðigjaldsins. Ég held að ef svo fer sem horfir þá gætum við farið að nálgast þann punkt að til háska horfði.