144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sú staða sem er komin upp núna sé nokkuð sérkennileg. Þetta er í fyrsta skipti að ég held sem það gerist að fólk sem er búið að mennta sig vel og kemst í krafti menntunar í ágætisstörf en byrjar kannski ekki í neinum toppstöðum, eins og hv. þingmaður segir, í erfiðleikum að fóta sig á húsnæðismarkaði og í sumum tilvikum er það gjörsamlega ómögulegt. Partur af því sem býr til þessa stöðu er hið ankannalega ástand sem er í hagkerfinu, þ.e. gjaldeyrishöftin. Krónur komast ekki út, þær leita í skjól í steypu og stáli og það gerir að verkum að til dæmis þar sem við búum, í miðborg Reykjavíkur, rýkur verð upp. Þetta er mjög hættulegt. Eina svarið er að efla félagslega húsnæðiskerfið, fjölga leiguíbúðum. Í reynd má segja af því að málið er hv. þingmanni skylt að taka eigi Reykjavíkurborg til eftirdæmis.