144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú margt sem er hægt að gagnrýna í annars skemmtilegri ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. (ÖS: Eins og hvað?) Hjal hv. þingmanns um einkavæðingu í heilbrigðisrekstri er svolítið sérkennilegt. En ég ætla ekki að fara út í það.

Ég er búinn að fylgjast með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í langan tíma og ég man, og mér finnst hann vera stoltur þegar hann er að tala um það, að hann var partur, forustumaður, helsta vonarstjarna reyndar, lítils skrýtins flokks sem hét Alþýðuflokkurinn. (ÖS: Skrýtins?) Ég man að sá flokkur, í tíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, barðist fyrir svokölluðum matarskatti. Þá sagði til dæmis þáverandi fjármálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, með leyfi:

„Ég tel mig hafa sýnt fram á það með veigamiklum rökum að sú skattkerfisbreyting sem gerð var í upphafi þessa árs og er undanfari þeirrar breytingar, sem hér er til umræðu, var ekki matarskattur, eins og lýðskrumarar hafa nefnt hana, (Forseti hringir.) heldur meiri háttar tekjujöfnun, einhver hin mesta sem gerð hefur verið (Forseti hringir.) af opinberri hálfu hér á landi.“

Þetta (Forseti hringir.) studdi hv. (Forseti hringir.) þm. Össur Skarphéðinsson. Hvað skeði?