144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hér með grein eftir Sighvat Björgvinsson. Fyrirsögnin er: „Skynsamleg tillaga í skattamálum“, þar sem hann rekur akkúrat þessar breytingar. Hann var líka í Samfylkingunni. Hann segir áframhaldandi, með leyfi forseta:

„Áframhaldandi stuðningur okkar kratanna dugði hvergi til. Skynsemi skipti ekki neinu máli.“

Hann segir í þessari grein:

„Skynsemi í framkvæmd skattamála er ekki hátt skrifuð á Íslandi, ekki meðal þeirra sem ekki vilja borga.“

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um að Samfylkingin hefði gert þetta upp og að stefnan væri allt öðruvísi núna. Hér var líka hæstv. fjármálaráðherra, ekki fyrir löngu — því að það var 1988 þegar Jón Baldvin var í þessu og Sighvatur Björgvinsson var að skrifa þessa grein fyrir nokkrum vikum — nánar tiltekið í síðustu ríkisstjórn, ríkisstjórn sem hv. þingmaður var í.

Hæstv. fjármálaráðherra þeirrar ríkisstjórnar fór yfir mikilvægi þess að einfalda skattkerfið, minnka muninn á milli þrepanna og enginn mótmælti því þá, enda voru það afskaplega skynsamleg ummæli (Forseti hringir.) hjá þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) fyrir nokkrum mánuðum.