144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir ári var rætt á Alþingi frumvarp atvinnuveganefndar um frestun á þeirri lagakvöð að 3,5% af eldsneyti í samgöngum yrði af endurnýjanlegum uppruna. Nefndin lagði til að gildistaka sektarákvæðis um íblöndun tæki gildi 1. október sl. í staðinn fyrir 1. janúar sl. Þá lagði ég til að gengið yrði lengra, fyrirliggjandi svigrúm yrði nýtt til fulls og gildistökuákvæðinu frestað til 2020. Ég færði rök fyrir því að þannig mætti spara ríkissjóði 6 milljarða sem annars mundu líklega renna til erlendra olíufélaga. Nú er liðið ár og eins og ég óttaðist hafa hundruð milljóna runnið úr landi, algerlega að óþörfu, eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga. Um áramótin næstu mun krafan um íblöndun aukast úr 3,5% í 5% með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, ríflega milljarður árlega. Fyrir 1 milljarð á ári gætu stjórnvöld gert margt skynsamlegra en að niðurgreiða innfluttan lífdísil sem er 80% dýrari en dísilolía. Hverju verður þjóðin bættari við að brenna 5 milljörðum í gjaldeyri að óþörfu næstu fimm árin?

Krafa ESB um 10% hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum frá og með 2020 tekur ekkert tillit til þess að hér á Íslandi er nóg af endurnýjanlegu rafmagni enda er megnið af rafmagni í ESB búið til með útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Fyrir Ísland væri skynsamlegt að niðurgreiða kaup á rafmagnsbílum, miklu skynsamlegra en að eyða milljörðum úr ríkissjóði til að niðurgreiða rándýran lífdísil sem ræktaður er á dýrmætu akurlandi sem fremur ætti að nýta til framleiðslu á fæðu.

Virðulegi forseti. Vissulega hafa hundruð milljóna tapast nú þegar en það er ekki of seint að bjarga 5 milljörðum til viðbótar sem annars munu brenna upp að óþörfu fram til ársins 2020. Ég mundi fagna því sérstaklega ef hv. atvinnuveganefnd sem sýndi það frumkvæði í fyrra að fresta gildistöku laga um íblöndun til 1. október mundi stíga skrefið til fulls og fresta gildistöku íblöndunarákvæðisins til ársins 2020.