144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni hér framhaldsfræðslu og þá ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra að setja 25 ára nemendur til hliðar í kerfinu, eins og ætlunin er að gera, og velta því upp hverjir verða í rauninni úti.

Það var verið að svara hér fyrirspurn á þingi af því að þessum nemendum hefur verið vísað í símenntunarmiðstöðvar. Þær fá rétt um 2 millj. kr. aukningu á milli ára til þess væntanlega að mæta öllum þeim fjölda sem þangað á að fara. Það er líka áhugavert, ef ég vísa í svar ráðherrans um framhaldsfræðsluna, hvernig hún er skilgreind í lögum. Ég hef rætt það áður hér á þingi en það er svona, með leyfi forseta:

„Framhaldsfræðsla er skilgreind sem hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulag“ — og takið nú eftir — „á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla“.

Það er sem sagt verið að vísa fólki sem vill ná sér í stúdentspróf og er orðið eldra en 25 ára í nám sem er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.

Við höfum meðal annars rætt málefni fanga og hvernig komið er fyrir námsráðgjöf hjá þeim. Mig langar þá að velta því upp hér: Á þetta við um þá líka? Fá fangar ekki þá betrun sem í því felst að fara í nám ef þeir eru orðnir 25 ára? Það verða nefnilega margir úti í þessu máli, virðulegi forseti, eins og litlu skólarnir úti á landsbyggðinni en ekki síst allt það fólk sem hefur ekki tök á því að stunda nám nema í þeim skólum. Í ljósi þess hvernig (Forseti hringir.) framhaldsfræðslan er skipulögð þá gengur þetta hreint ekki upp.