144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á tveimur tillögum til þingsályktunar sem eru til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Í annarri þeirra er lögð til aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu og er fyrsti flutningsmaður hv. 6. þm. Reykv. n., Björt Ólafsdóttir. Hin er um jafnt aðgengi að internetinu og er fyrsti flutningsmaður hv. 12. þm. Suðvest., Birgitta Jónsdóttir. Það sem þessar tvær tillögur eiga sameiginlegt er að þær sýna fram á mikilvægi þess að laga það sem á bjátar í netmálum á landsbyggðinni og ekki síður að tryggja jafnt aðgengi að netinu óháð búsetu og fjárhag. Í fyrri tillögunni sem ég nefndi er fjallað um fjarheilbrigðisþjónustu en þótt hún komi aldrei til með að koma fyllilega í stað hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu þar sem læknir hittir sjúkling hefur þegar sannast að í þeirri tækni felast gríðarleg tækifæri enda mikil gróska í þeim geira. En þá kemur enn og aftur upp gamli vandinn sem virðist fylgja hugmyndum sem þessum, nettengingar á landsbyggðinni. Netvandamál eru fleiri þar sem byggðin er dreifðari en samt sem áður er það einmitt í dreifðustu byggðunum þar sem áhugaverðustu tækifærin liggja. Hvort sem það er atvinna, heilbrigði eða menntun leikur internetið nú lykilhlutverk í almennri framþróun á svo gott sem öllum sviðum samfélagsins. Þótt við getum að mörgu leyti verið mjög stolt af ýmsu framtaki á tæknisviðinu sem finnst úti á landi, hvort sem það er netþjónusta á Ísafirði eða hugbúnaðargerð á Egilsstöðum, verður ekki hjá því litið að landsbyggðin hefur misst af og missir enn af ýmsum tækifærum sem hægt væri að grípa ef einhver heildstæð framtíðarsýn og virk stefna gilti um nettengingar á landsbyggðinni.

Ég tel því mjög brýnt að við leggjum okkur fram við að koma á jöfnu aðgengi að internetinu á landsbyggðinni allri og legg til að við gerum það eitt af forgangsverkefnum okkar þegar kemur að því að efla landsbyggðina.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.