144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þannig er mál með vexti að síðastliðið vor samþykktum við í þinginu breytingar varðandi löggæslumál á Íslandi, breytingar sem hafa verið í umræðunni og undirbúningi síðastliðin 20 ár. Í því frumvarpi sem síðar varð að lögum var gert ráð fyrir því að reglugerð yrði sett þar sem ákvarðað yrði með hvaða hætti umdæmum yrði skipt. Lögin taka gildi nú um áramót. Þá munu ný embætti taka til starfa. Það er mjög mikilvægt þegar sameiningar og breytingar á stofnunum ríkisins fara fram að unnið sé vel og markvisst að þeim breytingum. Fyrir liggur heil skýrsla um það sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 2008 og allsherjarnefnd vék að þeirri skýrslu í umfjöllun sinni í nefndaráliti um málið um að fylgja ætti þeirri línu sem þar væri lögð.

Þess vegna kom mér mjög á óvart að sú ákvörðun var tekin við setningu reglugerðarinnar að halda því skipulagi sem nú er, að lögreglan á Hornafirði verði áfram undir lögregluembættinu á Austurlandi vegna þess að allur undirbúningur á síðastliðnum mánuðum og vikum hefur verið í þá átt að lögreglan á Hornafirði verði innan lögreglustjóraumdæmisins á Suðurlandi. Það er vegna þess að við það samráð sem átti sér stað við gerð reglugerðarinnar kom ítrekað fram að vilji heimamanna stendur til þess að mál séu með þessum hætti, að lögreglan sé undir lögreglustjóranum á Suðurlandi. Það er vegna staðhátta, það er vegna þess að nú hafa Hornfirðingar tekið það skref að vera í samstarfi við Suðurland en ekki Austurland í öllum helstu málum. Það sem mestu máli skiptir þegar ákvörðun sem þessi er tekin er að líta til þess hvernig þjónustunni verður best sinnt, hvar samlegðaráhrifin eru mest og hver vilji þeirra er sem ætla að þiggja þjónustuna. Það er auðvitað stærsti (Forseti hringir.) þátturinn.

(Forseti hringir.) Á morgun munum við í nefndinni (Forseti hringir.) fá gesti til þess að fara yfir undirbúning (Forseti hringir.) þessara sameininga þannig að við getum áttað okkur betur (Forseti hringir.) á því hvað liggur hér að baki.