144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um hvað staðan í læknadeilunni er alvarleg. Við eigum hins vegar mjög gott heilbrigðiskerfi sem stendur mjög vel. (Gripið fram í.) Ég er bara að vitna í Birgi Jakobsson, nýjan landlækni, og í tölur OECD. Ég veit ekki hvaða betri upplýsingar er hægt að hafa um slíkt. Ég held að það skipti máli að við tölum ekki niður okkar góða heilbrigðiskerfi og reynum að hlúa að því.

Ég er ánægður að sjá nokkra stefnubreytingu hjá núverandi stjórnarandstöðuflokkum frá því á síðasta kjörtímabili, hvað þeir eru núna viljugir til að tala um forgangsröðun í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Það eru góðar fréttir.

Jafn mikið og við viljum fá lausn á þessari deilu, sem ég held að allir vilji af augljósum ástæðum, en ég heyri hér á sumum hv. þingmönnum sem voru hinum megin við borðið á síðasta kjörtímabili að þeir tala svolítið öðruvísi nú en áður þegar launadeilur eru annars vegar, þá þurfum við auðvitað að ákveða hversu mikið við ætlum að taka þær inn í þennan sal og hversu djúpt við ætlum að fara í málið. Við verðum þá að hugsa það í heild sinni hvort við teljum að það verði til þess að bæta ástandið og leysa málið. Ef við teljum skynsamlegt að við ræðum málin hér þá þurfum við auðvitað að ræða það á dýptina, um kjaramálin en ekki bara í þessu máli heldur í komandi kjaraviðræðum og kjaradeilum. Við skulum gera það ef við teljum að það muni hjálpa til. Af einhverjum ástæðum, virðulegi forseti, hafa stjórnmálamenn í gegnum áratugina ekki gert það.

Ég er ánægður að heyra að það er að verða betri samstaða milli allra flokka um að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar, þá sérstaklega (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustunnar. Ég fagna (Forseti hringir.) liðsinni Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hvað það varðar.