144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða hérna þá lokaákvörðun sem hæstv. forsætisráðherra tók á dögunum um að halda lögregluembættinu á Höfn í Hornafirði í sínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu eða aðstoðarmanni ráðherra í morgun kemur fram að þetta sé í samræmi við vilja heimamanna án þess að farið sé nákvæmlega yfir hvaða heimamenn það eru. Það er alla vega ljóst að það er ekki sá heimamaður sem valinn hefur verið til að stýra málefnum bæjarins vegna þess að hann er, eins og segir í fjölmiðlum, æfur yfir þessari ákvörðun.

Mig langar að ræða þetta í samhengi við önnur mál eins og þá ákvörðun að flytja Fiskistofu norður til Akureyrar og hvernig aðdragandi þeirrar tilkynningar var, hvernig farið var með úthlutun svokallaðra menningarstyrkja í forsætisráðuneytinu þegar það var bara gert með sms-tilkynningum og símtölum á lokametrunum. Slík ákvarðanataka er kannski viðeigandi þegar menn eru að spila Matador eða Útvegsspilið en svona er landi ekki stjórnað. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Það er einfaldlega ekki gert með þessum hætti. Það er algjörlega ótækt að svona ákvarðanir séu bara skrifaðar aftan á umslag og teknar á lokametrunum án útskýringa, án þess að nokkur virðing sé borin fyrir verkferlum og án þess að nokkur, ekki einu sinni þingmenn kjördæmisins, skilji hvað sé á ferðinni. Það er algerlega útilokað að svona sé gert. Það er ekki annað hægt en að gagnrýna þetta harðlega og óska eftir almennilegum skýringum stjórnvalda (Forseti hringir.) á því hvers vegna þetta er gert.