144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:53]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Óttari Proppé fyrir ræðu hans við þessa fjárlagaumræðu. Það var áhugavert að heyra að hann skyldi gefa sér tíma og tækifæri til þess að skoða þessi mál á breiðum grundvelli, skoða stóru myndina og í raun og veru velta vöngum aðeins yfir því hvert við stefnum, hvert samfélagið og heimsmyndin stefnir, í hvaða stöðu við erum hér heima við þessar aðstæður og hvernig við tökum á málum.

Ég vakti einmitt athygli á því í ræðu minni hér fyrir helgi að hvað varðar þennan tekjusamdrátt og það sem er að gerast varðandi fjárlagatekjurnar, sem skapar vandann svo aftur út á við, er í mínum huga um markvissa stefnubreytingu að ræða.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hvernig upplifir hann þetta? Er að hans mati um pólitíska stefnubreytingu að ræða þar sem verið er að draga markvisst úr jöfnuði og samneyslu í samfélaginu?