144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:59]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni og tek heils hugar undir. Ég lít á það sem ákveðna handvömm að þarna skorti 50 milljónir upp á fjárveitingar til útlendingamála, sem eru mjög mikilvægar til að hægt sé að halda áfram því góða starfi að stytta ferli umsókna hælisleitenda. Ég trúi því hreinlega og treysti að það verði vel tekið í breytingartillögur minni hlutans og að þetta fjármagn skili sér, ekki bara vegna þess að það er rétt að gera það því að það er mikilvægt fyrir vinnuna og kerfið hjá okkur að við höfum þetta fjármagn og vinnum vinnuna vel, heldur líka vegna þess að það mun á endanum hægja á öllu í þessum málaflokki og kosta okkur miklu meira.