144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil spyrja hann í síðara andsvari: Hvað getum við gert til þess að beita okkur? Við, þingmenn minni hlutans, höfum lagt fram breytingartillögu sem er á þingskjali og verður væntanlega borin undir atkvæði. Eftir því sem ég heyri hér í húsinu og milli manna þá er sameiginlegur skilningur fólks sá að þetta sé afar mikilvæg upphæð og mikilvægt að þetta fjármagn komi inn á milli 2. og 3. umr. Hvað getum við gert til þess að auka líkurnar á því að svo megi verða? Hvernig er málaflokkurinn staddur ef þetta fjármagn skilar sér ekki?