144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og málefnalega ræðu eins og þingmanninum er von og vísa, því að það er almenn regla hjá hv. þingmanni að halda slíkar ræður. Hann fór yfir það sem ég vona að samstaða sé um að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar og sérstaklega heilbrigðisþjónustunnar. Hins vegar þegar leið á ræðuna komu ýmsir aðrir útgjaldaflokkar sem hv. þingmaður vildi leggja áherslu á.

Eitt ég vildi spyrja hv. þingmann um: Af hverju talar hv. þingmaður um niðurskurð til Ríkisútvarpsins? Hv. þingmaður veit að verið er að auka framlögin svo hundruðum milljóna skiptir. Þetta sýnist mér vera hæsta hækkun ef tillaga ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga, það er örugglega til einhvers staðar, en alla vega miðað við svona helstu flokka er þetta 12% hækkun, sem er veruleg hækkun milli ára.

Ég spyr: Af hverju kallar hv. þingmaður það niðurskurð þegar verið er að auka í?