144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vísaði til þess í ræðu minni að sérstakar skýringar hefðu verið á hluta framlaga til Ríkisútvarpsins í kjölfar hrunsins sem höfðu með skuldastöðu útvarpsins eftir hrun að gera en ekki með beinan rekstur þess. Fyrir því hefur útvarpsstjóri gert ágætlega grein nú síðustu sólarhringa.

Það var þannig eftir hrunið að taka þurfti margar erfiðar ákvarðanir og víkja til hliðar mörgum grundvallarreglum vegna þess að neyðarástand var í ríkisfjármálum, hallinn var einn milljarður á hverjum einasta degi. Hluti af því voru framlög til Ríkisútvarpsins. En í tíð síðustu ríkisstjórnar tókst að koma fjármálum ríkissjóðs þannig að þau eru í plús og efnahagsstarfsemin hefur verið í vexti í mörg ár í röð. Það er því sannfæring mín að við stjórnmálamenn, ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, þurfum að skapa Ríkisútvarpinu þann ramma, sem afi minn og alnafni lagði ríka áherslu á þegar hann stofnaði Ríkisútvarpið á sinni tíð, að það hafi sjálfstæði í tekjustofnum þannig að það skipti ekki máli hvort hér í landinu er vinstri stjórn eða hægri stjórn, hún geti ekki beitt fjárstýringarvaldi sínu til að hafa óeðlileg áhrif á dagskrá eða fréttaflutning Ríkisútvarpsins. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við þurfum að ná saman um þetta.

Tillagan sem við flytjum og sú áhersla sem við leggjum er að Ríkisútvarpið fái áfram það útvarpsgjald sem er í ár, að það verði ekki lækkað og gangi framvegis óskert til Ríkisútvarpsins, óháð því hvaða ríkisstjórn er í landinu á hverjum tíma og að við tryggjum þannig sjálfstæða fjölmiðlun í almannaeigu, bæði til þess að veita hægri stjórnum aðhald og vinstri stjórnum.

Ég vona að við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson getum orðið sammála um þetta grundvallarsjónarmið hvað sem líður ríkisreikningi 2009.