144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins þarf ekkert að rífast við mig um þessi efni. Sjálfstæðisflokkurinn skipaði nýjan útvarpsstjóra. Sá útvarpsstjóri hefur gert grein fyrir stöðunni. Ég geri ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn treysti þeim embættismanni sem hann sjálfur hefur skipað til að stýra stofnuninni þegar kemur að þessum upplýsingum.

Þar fyrir utan getur hv. þingmaður þá bara rifist við stjórn Ríkisútvarpsins, vegna þess að bæði fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í stjórn Ríkisútvarpsins eru sammála mér þegar kemur að fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Þess vegna hefur maður áhyggjur af því að hér sé einhver pólitík í málinu vegna þess að þeir bestu menn sem stjórnarflokkarnir hafa á að skipa til að hafa eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins, og skipuleggja þá starfsemi, segja að þessa fjármuni þurfi til að tryggja áframhaldandi rekstur Ríkisútvarpsins og sjálfstæði þess.

Þess vegna skil ég ekki (Forseti hringir.) hvers vegna stjórnarflokkarnir hér í þinginu hlusta ekki á sína eigin trúnaðarmenn (Forseti hringir.) og hverfa frá því að lækka útvarpsgjaldið. Það er nú ekki erfið ákvörðun að hætta við að lækka útvarpsgjaldið. (Forseti hringir.) Það kostar ekkert fyrir ríkissjóð. (GÞÞ: 300 milljónir.)