144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Taka má undir það með þingmanninum að sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af kjörum þessa hóps. Eins og tölur Talnakönnunar sýna er kjaraskerðing þeirra sem þeim hópi tilheyra á fjórum árum um 15–16% miðað við verðlag og hafa enn meira dregist aftur úr svona almennri launaþróun í landinu á sama tíma. Það gefur auðvitað ástæðu til að hafa áhyggjur, líka þegar nauðsynjar sem þessi hópur þarf að nota daglega eins og matvaran er hækkuð um fjögur prósentustig.

Aðstoð Framsóknarflokksins við heimilin í landinu var einhvern veginn svona: Við skulum lækka höfuðstól skuldanna um 6% og ríkisstjórnir næstu kjörtímabila fá að borga þann reikning, en við ætlum hins vegar að hækka matinn núna um fjögur prósentustig.

Þetta getur kannski komið út á núlli fyrir sum heimili, einkanlega þau sem eru frekar skuldsett í íbúðarhúsnæði, en fyrir marga úr hópi öryrkja sem búa í leiguhúsnæði er þetta býsna vont réttlæti. Þær mótvægisaðgerðir sem svo eru kallaðar eru niðurfelling vörugjalda af ýmiss konar vörum sem iðulega falla bara til fyrir leigusalann en ekki fyrir leigutakann, eins og af byggingarvörum og raftækjum, eða einfaldlega er verið að fella niður gjöld af vörum sem þessi þjóðfélagshópur hefur engin efni á og nýtur þess vegna í engu hvað varðar mótvægisaðgerðirnar.

Ég tek undir með hv. þingmanni að barnafjölskyldurnar þarf náttúrlega sérstaklega að hafa í huga. Og fyrir barnafjölskyldur er auðvitað enn meira íþyngjandi þegar matvara er hækkuð með þeim hætti sem Framsóknarflokkurinn hefur nú ákveðið, því að þeir sem eru með fleiri en sjálfa sig á framfæri þurfa náttúrlega fleiri munna að metta og meiru að verja til matarkaupa.