144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá ágætu skoðanakönnun sem Píratar beittu sér fyrir. Hún er býsna athyglisverð, sérstaklega að sjá hve ólík viðhorf sjálfstæðismanna eru í könnuninni til ýmissa álitaefna frá því sem er hjá meginþorra þeirra sem spurðir eru þegar haft er í huga hversu ráðandi sá flokkur er við landstjórnina.

Nei, þetta getur ekki gengið svona og það má ekki skilja við fjárlög að óbreyttu. Ég þekki kannski þann þátt heilbrigðiskerfisins best sem lýtur að augnlækningum. Nákvæmlega þar þekkjum við þessa sögu. Við eigum fremstu augnlækna í heiminum. Við eigum svo ótrúlega góða augnlæknaþjónustu að menn skrifa um það í virtustu læknatímaritum að fyrst þeir geti þetta á Íslandi þá hljóti aðrir að geta gert þetta líka í Bandaríkjunum eða Bretlandi eða hvar sem talað er um það. Menn sjá til dæmis sjaldan alblint fólk á Íslandi en oft í mörgum öðrum ríkjum. Ein af ástæðum þess er að okkur hefur tekist að ráða niðurlögum sykursýnisblindu með öflugum forvörnum, með því að grípa fljótt inn í og koma í veg fyrir að fólk missi alveg sjónina. Þessi grein er mjög viðkvæm fyrri niðurskurði. Þá verða biðlistar gríðarlega langir og í þeim biðlistum felst mikil sóun. Það á einkum við um svokallaðar cadract-aðgerðir, þ.e. augnsteinaskipti, þegar skipt er um augastein í fólki, mjög ódýr aðgerð sem færir fólki aftur sjón, gerir það aftur sjálfbjarga, margborgar sig, 100 þúsund prósent vildi ég næstum því segja. Það er sárgrætilegt að sparnaður eigi að vera í því fólginn að safna upp hundruðum einstaklinga á biðlista mánuðum og missirum saman eftir því að komast í jafn einfaldar og ódýrar aðgerðir sem bæta jafn mikið lífsgæði og raun ber vitni. Þetta er bara eitt lítið dæmi (Forseti hringir.) um þá sóun sem er samfara slíkum sparnaði.