144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki bara við vonda ríkisstjórn að eiga, það er líka þannig í dag að styttra er á milli landa en áður var. Þess vegna eykst samkeppni okkar við önnur lönd um færa sérfræðinga eins og við eigum hér. Þeir geta átt þess kost að stunda vinnu tímabundið annars staðar. Þeir geta átt þess kost að búa annars staðar en sækja samt reglulega hingað heim til fjölskyldu og vina o.s.frv. Það gerir það enn nauðsynlegra að skýr skilaboð komi um það að jafnvel þó að það séu ekki næg efni í landinu núna þá sé eindreginn vilji til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Almenningur hefur sent heilbrigðisstéttum algerlega skýr skilaboð um þetta. Það er eindregin afstaða almennings að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Það vantar algerlega hin pólitísku skilaboð frá ríkisstjórnarforustunni um það að á þinginu og í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) verði forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustu. (JÞÓ: … Samkeppniseftirlitið …)