144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta hafa skólameistarar spurt. Hver á að velja þá nemendur sem þurfa að fara? Svörin eru bara: Ja, þeir geta tekið fleiri inn ef þeir treysta sér til að kenna þeim en þeir fá ekkert borgað með þeim. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að það megi hafa nemendur yfir 25 ára aldri en það sé ekkert borgað með þeim. Skólastjórnendur ráða hvort þeir hafa 30 manns í hópnum eða 22, skólinn fær bara borgað með nemendum sem eru ekki orðnir 25 ára. Nemendaígidin eru svona mörg og ef þau eru fyllt með námsmönnum sem eru yngri en 25 ára þá verður að segja við hina: Því miður, það er ekki pláss fyrir þig í skólanum eftir áramót, alveg sama hvar þú ert staddur, þótt þú eigir bara eina önn eftir í útskrift. Þá er viðkomandi vísað til símenntunarmiðstöðva sem starfa ekki eftir lögum um framhaldsskóla. Þar þurfa ekki einu sinni að vera kennaramenntaðir aðilar, (Gripið fram í: Ha?) þeir eru þar mjög margir en þurfa ekki að vera það. Það er það sem ég hef gagnrýnt því að ég hef miklar mætur á símenntunarmiðstöðvum. (Forseti hringir.) Mér finnst þær eiga að þjóna öðru hlutverki en framhaldsskólaskyldu.