144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég átti reyndar alveg von á þessu með forgangsröðunina, heimilin — ríkissjóður. Hv. þingmaður kom inn á forsendur fjárlaga og þær hagtölur sem hafa verið að birtast um minni einkaneyslu og þar af leiðandi minni hagvöxt. Forsendur fjárlaga gera ráð fyrir því að það verði einkaneyslutryggður hagvöxtur árið 2015, án þess að maður fari út í miklar vangaveltur. Auðvitað þarf meiri greiningu, ég er sammála hv. þingmanni um það. Ég ætla að tala varlega í því efni en maður getur séð samhengi í því að forgangsraða í þágu heimila áður en við tökum viðspyrnuna sem fæst með jafnvægi í ríkisfjármálum og byrjum að greiða niður skuldir ríkissjóðs í kjölfarið.

Svona rétt til að bæta við, af því að tími minn er stuttur, þá er forgangsröðunin sem birtist nú í breytingartillögum (Forseti hringir.) í þágu heilbrigðiskerfisins. Hvaða vangaveltur eru um þá forgangsröðun?