144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég heyrði að hún fjallaði hér um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Illu heilli var tekin sú ákvörðun í fjárlagavinnu á síðasta ári að skera niður umtalsvert fjármagn til framkvæmdasjóðsins þrátt fyrir harða gagnrýni minni hlutans á þeim tíma, sem hélt því fram að fjármagnið mundi hvergi nærri duga til að standa undir þeim verkefnum sem við blöstu. Svo sér maður að stjórnarmeirihlutinn hefur séð að sér og ákveðið, í rauninni neyðst til að gera það, að sækja um 380 milljónir á fjáraukanum, ef ég man rétt, til að standa undir framkvæmdum. Horfur núna, eftir því sem ég kemst næst, er að skorið verði enn meira niður hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en gert hefur verið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða framtíðarsýn birtist þar. (Forseti hringir.) Hvernig er hægt að bregðast við þessum mikla niðurskurði?