144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir prýðisræðu. Hann notaði meginhluta af ræðu sinni til að ræða heilbrigðiskerfið í sinni víðustu mynd og auðvitað þann alvarlega vanda sem blasir við og kom inn á máli sínu til stuðnings könnun sem Píratar létu Capacent Gallup gera sem var býsna athyglisverð. Ég hrósa þeim fyrir það vegna þess að það er mjög gagnlegt í svona umræðu eins og fer fram hér um fjárlög. Þar birtist skýr vilji til forgangsröðunar fólks í þágu heilbrigðiskerfisins. Við vitum og það hefur komið fram í umræðum allra hér að enginn deilir um það að heilbrigðiskerfið, eins frábært og það er, var búið að þola niðurskurð eins og flestir þættir mannlífsins og okkar hagkerfis hafa þurft að þola og takast á við undanfarin ár. Nú eru bjartari tímar. Það er hægur bati en búið er að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og í þessum fjárlögum birtast sannanlega stóraukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað er mannauðurinn sá framleiðsluþáttur í uppbyggingu þess kerfis sem er mikilvægastur en um leið verðum við náttúrlega að hafa í huga þá sátt sem verður að vera á milli allra launastétta því það eru fleiri. Og það einkennir velmegunarhagkerfi að þegar hagvöxtur er vilja allir fá sinn skerf af kökunni, það eru vangaveltur um þetta atriði.