144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn er líklega að vísa til bankaskattsins. Bankaskatturinn var settur á 2010 og markmið hans var mjög vel skilgreint. Annars vegar var það að skattleggja skuldirnar, vegna þess að þeir eru að draga úr kerfisáhættu bankakerfisins, og hins vegar að ná til baka fé sem tapaðist í hruninu. Hvað gerðist í hruninu? Við þurftum að setja í bakkgírinn í heilbrigðiskerfinu, þannig að þegar verið er að ná til baka því skattfé væri kannski óvitlaust að setja eitthvað af því í að byggja upp heilbrigðiskerfið, ná okkur upp fyrir yfirborðið. Það er þannig sem ég heyri þetta úti á landsbyggðinni, hjá Landspítalanum og hjá læknum, að þeir sem stýra þessu kerfi eru alltaf eftir á.

Það væri skynsamlegt, ef við horfum á markmið bankaskattsins, að nota hann meðal annars í að gefa í heilbrigðiskerfið og forgangsraða, gefa í það sem var vanrækt frá hruni og ná því upp á þannig stig að við séum alla vega komin mikið í áttina að stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, svo ég hafi þetta alveg rétt, með leyfi forseta: Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnishæft við nágrannalöndin. Við þurfum að minnsta kosti að ná okkur upp á það stig að vera samkeppnishæf í þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi: Launum, þótt það sé ekki endilega fyrsta atriðið en það er eitt af þeim, vinnuálagi og aðbúnaði. Við verðum að ná því hvað þessi þrjú atriði varðar, þau hafa mest áhrif á það að læknar ákveði að vera hérna, ef svo er „kikkar inn“, ef ég má segja svo, með leyfi forseta, löngunin til að vera á Íslandi. Læknarnir vilja flestir vera á Íslandi en það er bara ekki í boði fyrir svo mikið af hinum ungu læknum sem eru með miklar skuldir o.s.frv. Ef við náum laununum á ákveðið stig verður heilbrigðiskerfið kannski samkeppnishæft, eins og stjórnarsáttmálinn segir, við þurfum að alla vega að ná þeim upp að því marki að við náum læknunum heim og missum þá ekki.