144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að koma inn á samgöngumálin. Hv. þingmaður ræddi samgöngumál í ræðu sinni og eins og þetta blasir við okkur núna er sáralítið fé til nýframkvæmda á næsta ári. Menn hafa verið að færa fé á milli úr nýframkvæmdum yfir í viðhald og snjómokstur vegna þess að þörfin er mikil þar, en ekki er verið að setja neitt viðbótarfé í þessa málaflokka að neinu gagni eins og væntingar voru til eftir samdrátt liðinna ára. Mig langar að heyra viðhorf hans, hvað þetta geti þýtt fyrir uppbyggingu vegakerfisins innan lands. Nú vitum við að ferðamönnum fjölgar mjög ört og mikill akstur er á þjóðvegum sem bætist þá við af hálfu ferðamanna. Sumir vegir að vinsælum ferðamannastöðum eru oft lélegir, svo að ég nefni bara einn sem er í mínu kjördæmi að Látrabjargi, sá vegur er okkur til skammar, lélegur malarvegur.

Ekkert liggur fyrir um hvernig ný samgönguáætlun lítur út, hvort framkvæmdir verði boðnar út til dæmis við jarðgöng, Dýrafjarðargöngin og Vestfjarðaveg 60. Fleiri slík útboð liggja ekki fyrir. Hvað telur hv. þingmaður að þetta komi til með að gera ef menn draga svona lappirnar varðandi nýframkvæmdir og líka viðhaldið þó að eitthvað hafi verið sett inn í þau mál með breytingartillögum við 2. umr.? Erum við ekki komin að ákveðinni ögurstundu miðað við uppsafnaða þörf í þessum málaflokki?