144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hver er heildarhugsunin í þessu fjárlagafrumvarpi? spurði hv. þingmaður. Það er ekki mitt að svara því fyrir ríkisstjórnarflokkana, en það var rétt eftir að þessi spurning kom fram að hv. formaður fjárlaganefndar, sem var eini stjórnarþingmaðurinn sjáanlegur hér, vék úr salnum. Ég ætla bara að segja mína skoðun á því hver heildarhugsunin í þessu fjárlagafrumvarpi er. Mér sýnist hún mjög einföld, hún er að létta byrðum af þeim sem eiga fyrir þeim. Auðlegðarskattur er tekinn af, veiðigjöld eru lækkuð, en gjöldum er bætt á. Sjúklingar þurfa nú að borga 1,9 milljarða í gjöld sem þeir þurftu ekki að borga áður og svo má lengi telja.

Það virðist vera heildarhugsunin í þessu að þeir sem minna mega sín þurfa að borga meira og þeir sem eiga fullt af peningum þurfa að borga minna.

Ég ætla að leyfa mér að nefna subbuskap í stjórnsýslunni, t.d. flutninginn á Fiskistofu. Starfsmenn hafa skrifað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og beðið hana að fara yfir þetta. Náttúrupassinn var nefndur, breytingin á lögregluembættunum á Austurlandi. Það hefur verið áhugamál mitt um langt skeið að til að hafa hemil á framkvæmdarvaldinu þá væri það gott mál ef ráðherrar sætu ekki á þingi. Þá mundum við kannski bera meiri virðingu fyrir löggjafarþinginu og við hefðum meira aðhald á þeim.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hver hans skoðun er í þessum efnum.