144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verið mikill stuðningsmaður þess að ráðherrar sætu ekki endilega hér á þingi og að það væri sjálfsagt mál, ef þingmaður yrði ráðherra, að hann mundi víkja sæti og kalla inn varamann og gegna þá eingöngu embætti ráðherra á meðan þannig væri. Ég held að sá aðskilnaður væri mjög af hinu góða.

Það mundi líka verða til þess að við værum með fullskipað þing. Það er því miður þannig að þegar þingmenn hverfa héðan til ráðherrastarfa eru þeir ekki mjög gagnlegir í því starfi sem er hér í þinginu. Oft er það þannig í vinnu fastanefndanna að maður sér að það mundi vera mikið til gagns að vera með fleiri þingmenn við störf þar. Í sumum tilfellum væri það ekki til gagns, en svona heilt yfir væri það betra. Ég tala nú ekki um að það eru yfirleitt reynslumeiri þingmennirnir sem hverfa til þessara starfa. Þannig að ég held að það væri bara af hinu góða.

Það mundi líka auka stefnumótunarhlutverk þingsins. Menn mundu, held ég, kannski taka sér meiri tíma ef góður aðskilnaður væri þarna á milli til að fara yfir lagafrumvörp, mögulega eiga frumkvæðið að einhverju leyti í samstarfi við framkvæmdarvaldið að mótun heildarlaga, heildarhugsunar, framtíðarsýnar, sem mundi leiða til þess að við fengjum meiri stöðugleika í okkar stjórnsýslu og meiri langtímahugsun í stjórnmálalífið allt.