144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni að það liggur ekkert fyrir hvert menn ætla að fara með þessum breytingum. Maður sér stjórnmálamenn stundum skamma stofnanir fyrir að standa sig ekki í stykkinu eða fara fram úr fjárheimildum. En það gerist sjálfkrafa þegar stofnunum eru ekki skammtaðir fjármunir til að standa undir lögbundnu hlutverki sínu. Ef menn ætla að breyta rekstrarramma stofnunar eins og Ríkisútvarpsins þá verður að fylgja því breyting á skilgreindu hlutverki þess. Það gefur augaleið.

Því miður er þetta að gerast á mjög viðkvæmum tímapunkti í sögu Ríkisútvarpsins. Það er greinilegt á öllu sem blasir við manni þegar maður kemur þar inn og þegar maður horfir á það hvernig þessi stofnun birtist almenningi að ný kynslóð er tekin við. Þarna gætu mjög spennandi tímar verið fram undan. En því miður er ekki verið að bregðast við því af hálfu löggjafarvaldsins eða framkvæmdarvaldsins að (Forseti hringir.) gefa mönnum rými til að blómstra í þessum breytta veruleika.