144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þjóðin virðist vera alveg afdráttarlaus í afstöðu sinni til forgangsröðunar í þjóðfélaginu. Við píratar kölluðum eftir skoðanakönnuninni og Capacent Gallup gerði hana fyrir okkur. Við töldum að þetta yrði niðurstaðan og það er einmitt það sem ég hef heyrt frá mörgum þingmönnum í umræðunni núna, þeir trúðu því að fólk vildi setja heilbrigðiskerfið í forgang. Það sem kom mér á óvart var hvað það var afgerandi. Þrettán hundruð og eitthvað manns settu heilbrigðiskerfið í 1. sæti og hundrað og eitthvað manns vildu setja menntakerfið í forgang. Það eru sjö sinnum fleiri sem vilja setja heilbrigðiskerfið í forgang. Ef við tökum saman 1. og 2. sæti vilja 90% landsmanna setja heilbrigðiskerfið í forgang og 44% menntamál. Menntamálin koma sterk inn þar. Þetta er það sem landsmenn vilja.

Nú ræðum við fjárlögin og hvernig við ætlum að útdeila fé. Það er eitt sem við getum gert til þess að leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Ég hef verið að spyrja þingmenn um nokkuð sem ég vil gera, þ.e. að við afgreiðum fjárlögin ekki strax, að við (Forseti hringir.) tölum hér fram til 31. desember. Við þurfum að afgreiða fjárlögin alla vega fyrir áramót til þess að hægt sé að borga fólki út, (Forseti hringir.) en við gætum (Forseti hringir.) tafið jólafríið svolítið (Forseti hringir.) til að sýna samstöðu (Forseti hringir.) og þrýsta á að þessi deila (Forseti hringir.) verði leyst.