144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

ósk um fund með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins.

[13:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil beina þeirri auðmjúku ósk til forseta að hann styðji okkur þingmenn og þingnefndir í því að geta rækt okkar eftirlitshlutverk í því efni sem kemur fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar og óska eftir atbeina þingforseta í því að stjórnarformanni FME sé gert ljóst að það er óviðunandi annað en að hún komi á fund nefndarinnar til þess að ræða þau fjölmörgu álitamál sem upp hafa komið að undanförnu og þá stöðu sem af þeim hefur hlotist.

Það gengur náttúrlega ekki að það sé eitthvert smekksatriði hvort menn mæti, trúnaðarmenn Alþingis og framkvæmdarvaldsins, á fund þingnefnda þegar eftir því er leitað. Þá erum við bundin á höndum og fótum að því er varðar það að geta sinnt eftirlitshlutverki okkar.