144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

ósk um fund með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins.

[13:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er afar óheppileg staða sem upp er komin. Fjármálaeftirlitið er ekki hver önnur stofnun. Fjármálaeftirlitið er lykilstofnun í stjórnkerfi Íslands. Það að enginn vafi sé á hæfi þeirra sem fara með völdin er grundvallaratriði. Það er skylda Alþingis og efnahags- og viðskiptanefndar að hafa sterkt eftirlit með því.

Nú hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipað stjórnarformann fyrir Fjármálaeftirlitið sem upp hafa komið ýmis álitamál um eins og hér hefur verið rætt. Það er algerlega óþolandi að það líði vika eftir viku eftir viku án þess að stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins treysti sér til þess að koma fyrir þingnefnd og svara sjálfsögðum spurningum. Virðulegur forseti. Þessi ástandi verður að linna. Ég mun taka það upp á fundi þingflokksformanna með forseta og hvet forsætisnefnd sömuleiðis til að láta málið til sín taka.