144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hagvöxtur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja og hvar ég á enda í þessu svari. Það væri gott að byrja á því að fá einhvern botn í skoðun Samfylkingarinnar á því hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna séu þá eftir allt ekki þensluhvetjandi. Það hefur verið málflutningur Samfylkingarinnar fram til þessa á þessu kjörtímabili að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar væru mikið glapræði vegna þess að þær mundu valda mikilli verðbólgu og einkaneysla færi úr böndunum. Síðan kemur formaður Samfylkingarinnar og segir: Það er engin einkaneysla, enginn vöxtur hennar í landinu og það er mikið áhyggjuefni.

Þá er farið yfir í skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin hefur ekki mælt fyrir skattalækkunum. Því er haldið fram að ríkisstjórnin hafi ekki lækkað skatta á tekjum undir 250.000 kr. og því sé vöxtur einkaneyslu enginn. Staðreynd málsins er sú að ríkisstjórnin tekur enga skatta af þeim sem eru með tekjur undir 250.000 kr. Þeir eru einungis greiddir til sveitarfélaganna. Það verður þá að túlka orð formanns Samfylkingarinnar sem áskorun á sveitarfélögin í landinu að fara nú að lækka útsvarið vegna þess að það muni koma þeim sem eru undir þessum tekjuviðmiðum beint til góða. En um hina sem ríkið tekur tekjuskatta af er það að segja að þeir hafa allir fengið skattalækkun. Allir hafa notið góðs af þeim breytingum sem við gerðum á tekjuskattskerfinu í fyrra með því að létta 5 milljörðum af tekjuskattsgreiðendum í landinu og sættum fyrir það mikilli gagnrýni vegna þess að það var ekki nóg, vegna þess að það voru of fáar krónur. Nú hefur umræðan um matarskatt snúist um færri krónur á heimili en sá tekjuskattur. Þessu er öllu snúið öfugt.

Upp úr stendur að í fjárlagafrumvarpi þessa þings, sem er fyrir næsta ár, og tengdum málum er kaupmáttur að vaxa. Hann er að ekki að dragast saman eins og formaður Samfylkingarinnar heldur, (Forseti hringir.) heldur er hann að aukast.