144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hagvöxtur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er nú þannig með barnabæturnar að við erum að bæta við; fyrir utan verðlagsbætur þá erum við að bæta milljarði við barnabæturnar á næsta ári. Við erum einmitt að auka skerðingar hjá þeim sem eru með hærri tekjur og færa til þeirra sem eru með lægri tekjur. Þetta er kerfið eins og við tókum við því af vinstri stjórninni, hafi menn einhverjar athugasemdir við barnabæturnar sem voru reyndar skertar alveg sérstaklega á síðasta kjörtímabili.

Aðalatriði málsins er þetta: Við gerum breytingar á sköttum á okkar fyrsta ári hér í ríkisstjórn sem lækka tekjuskatt fyrir alla sem greiða tekjuskatt. Miðþrepið lækkar mest, þar sem allt venjulegt fólk er. Langflestir launamenn eru í miðþrepinu. Reyndar kemur viðbótarhækkun til þeirra sem voru undir 290.000 kr. á mánuði, 3% lækkun. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari gagnrýni.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að við eigum að hafa áhyggjur af því ef svo fer að nýjustu mælingar (Forseti hringir.) á vexti landsframleiðslunnar reynast réttar.