144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

kjaradeila lækna.

[13:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að við öll í þessum sal höfum þungar áhyggjur af stöðunni í læknaverkfallinu sem nú stendur yfir. 200 læknanemar afhentu hæstv. fjármálaráðherra yfirlýsingu í gær þar sem þeir lýstu því yfir að þeir mundu ekki sækja um stöður kandídata og aðstoðarlækna á Íslandi fyrr en þessi deila mundi leysast. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagðist ekki bjartsýnn á að leysa deiluna því að ekki væri hægt að ráðast í neitt sem ylli óstöðugleika annars staðar.

Hvar er óstöðugleikinn í dag? Við horfum upp á gríðarlegan óstöðugleika í heilbrigðisþjónustunni. Við horfum upp á það að 500 aðgerðir á biðlistum hafa verið felldar niður, það er búið að fresta ótal rannsóknum, yfir 2 þús. dag- og göngudeildarkomum á Landspítalanum hefur verið frestað og auðvitað er almenningur í landinu áhyggjufullur og óttasleginn um hvert þetta stefnir. Þarna þurfum við að horfa á það að heilbrigðiskerfi sem við erum búin að eyða áratugum í að byggja upp virðist allt vera að bresta. Það er kannski ekki endilega fyrir okkur á löggjafarsamkundunni að leggja mat á launakröfuna nákvæmlega, en í þessari deilu fara saman deilur um kjör, aðstæður og framtíðarsýn í heilbrigðismálum. Það er ýmsu fórnandi til þess að leysa deiluna og til þess að ungir læknar fái þau skilaboð frá stjórnvöldum að þeir séu velkomnir heim. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hans mat á deilunni, því að nú er búið að samþykkja áframhaldandi verkfallsaðgerðir eftir jól: Hvað er hægt að gera? Hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að við þurfum að ná ákveðinni þjóðarsátt um að forgangsraða heilbrigðismálunum og það hljóti að skila sér inn í þessa deilu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hversu brýnt er að leysa deiluna að hans mati? Getum við látið þetta halda svona áfram eftir áramót?