144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

samningar við lækna.

[14:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Já, heilbrigðiskerfi okkar er enn gott. Við fáum „all green“ eða alla þætti græna hvað varðar mikilvægustu þætti heilbrigðiskerfisins samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Það er enn þá gott vegna þess að við búum að góðum sérfræðingum, vegna þess að við búum að góðum mannauði. Það sem heldur í mannauðinn er náttúrlega að fólk vill búa á Íslandi svo framarlega sem þættir eins og aðstaða, vinnuálag og laun eru ekki afgerandi slæm á Íslandi og þau eru orðin afgerandi slæm á Íslandi.

Það varð hrun. Við vorum í bakkgírnum lengi. Heilbrigðiskerfið tók ekki þátt í góðærinu á við margar aðrar stofnanir. Þannig að nú er ígjöfin — vissulega er ríkisstjórnin að gefa eitthvað í, en miðað við ástandið, miðað við samkeppnisstöðu okkar við nágrannalöndin, sem er einmitt það sem er talað um í stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna að eigi að bæta, stöndum við illa. Nú eru læknar farnir í verkfall í fyrsta skipti í sögu landsins.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar var samþykkt ályktun, þar sem kom fram að fyrst skyldi leggja skattfé í verkefni sem væru brýn og áríðandi. Þar var öruggt heilbrigðiskerfi nefnt fyrst.

Það virðist vera að sjálfstæðismenn á landsfundi séu sammála landsmönnum sem setja heilbrigðiskerfið í fyrsta eða annað sæti, í 90% tilvika. Í kosningaloforðum bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, stjórnarflokkanna, var talað um mikilvægi heilbrigðiskerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn sagði að heilbrigðisstarfsfólkið okkar væru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins og það sama var sagt af hinum stjórnarflokknum.

Mig langar því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort honum finnist það ekki vera brýnt og áríðandi að ná samningum við lækna sem fyrst.