144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hugmyndir um útgönguskatt.

[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er hreyft mjög stóru og mikilvægu máli sem við höfum haft til skoðunar í nýrri ríkisstjórn í rúmlega ár, kannski komið eitt og hálft ár núna. Í síðustu viku fengum við í hendur fullmótaðar hugmyndir frá ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar um hvaða kosti við hefðum fyrir framan okkur í ljósi athugunar á lagalegri og efnahagslegri stöðu málsins, ásamt með því mati sem þarf að eiga sér stað á því hvað er líklegast til að skila árangri.

Mér fannst í fyrstu sem þingmaðurinn legði mesta áherslu á að ná niðurstöðu fyrir slitabúin. Vissulega eru þau mjög stór hluti gjaldeyrishaftavandans, en við höfum líka krónur sem vilja leita út úr hagkerfinu sem eru utan slitabúa. Og svo höfum við allan íslenskan almenning, öll fyrirtækin í landinu, nýsköpunarfyrirtæki og rótgróin fyrirtæki og lífeyrissjóði. Það er einungis með því að nálgast þetta með heildstæðri lausn sem ég trúi því að við náum árangri.

Til þess að svara spurningu hv. þingmanns vil ég meina að okkur hafi orðið mjög ágengt í því að skilgreina vandann, fá ráðgjöf um mögulegar lausnir og að við höfum aldrei verið jafn nærri því að tefla fram fullbúnum hugmyndum að lausn málsins eins og í dag. Það var hins vegar því sem næst autt borð sem við komum að sem ný ríkisstjórn þegar kemur að hugmyndum um lausn vandans.