144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hugmyndir um útgönguskatt.

[14:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það eina sem hefur gerst í málefnum þrotabúa föllnu bankanna frá því að þessi ríkisstjórn tók við er að hæstv. fjármálaráðherra hefur greitt hundruð milljarða í erlendum gjaldeyri inn á reikninga kröfuhafa án þess að fyrir liggi heildarlausn á vandanum. Það verður ekki betur séð en Framsóknarflokkurinn hafi forustulaust gefist upp við hugmyndir um það að niðurfæra þetta vandamál um 800 milljarða, eins og boðað var á síðunni snjohengjan.is fyrir síðustu kosningar. Ég hef, virðulegur forseti, verulegar áhyggjur af því að fjármálaráðherra sé að heykjast á verkefninu.

Þess vegna spyr ég hann hér að lokum hvort hann sé ekki enn þeirrar skoðunar að það sé úrslitaatriði fyrir íslenskt atvinnulíf og afkomu fólks og fyrirtækja hér í landinu á komandi árum að það fáist hundruð milljarða króna afskrifuð í uppgjöri föllnu bankanna.