144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hugmyndir um útgönguskatt.

[14:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég verð að játa að mér finnst vera eins og óttablandinn tónn í málflutningi hv. þingmanns, ótti við það að mögulega nái menn loksins einhverjum árangri í áætlun um afnám hafta, að menn nái innan skamms mögulega að stíga skref sem raunverulega koma til með að skipta máli og valda straumhvörfum í gjaldeyrishaftaástandinu. Það þarf enginn að óttast það að menn séu að gefast upp á verkefnum, þvert á móti, vegna þess að við höfum unnið markvisst að lausn vandans. Við höfum fengið til liðs við okkur færustu sérfræðinga og við höfum skipað fólki til verka sem er nýbúið að skila af sér umfangsmikilli vinnu sem fer nú til frekari úrvinnslu í stjórnkerfinu. Það hefur legið fyrir frá upphafi sem hv. þingmaður spyr hér um, það þarf að létta af íslensku krónunni nokkur hundruð milljarða þrýstingi, hvað sem menn vilja síðan kalla þá aðgerð sem fylgir því að breyta því ástandi.