144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Páll Valur Björnsson komist þarna að kjarnanum. Ástæðan fyrir því að við getum ekki eytt fátækt og getum ekki tryggt að hér geti allir lifað mannsæmandi lífi er að við höfum ekki náð samkomulagi um að skipta kökunni rétt. Þetta er hugmyndafræðin að sumir sinni mikilvægari störfum en aðrir í samfélaginu, að þeir sem véla með peninga gegni miklu mikilvægara starfi en sá sem vinnur á sjúkrahúsi. Þetta er vandinn sem við glímum við, það eru viðhorfin. Menn geta staðið á orginu og sagt: Við höfum lagt fram okkar eigið fé. Þeir hafa ekki lagt fram eina einustu fj… krónu. Þeir hafa fengið hana að láni frá vinum og vandamönnum, þá er ég að tala um inni í fjármálakerfinu, þeir hafa nánast ekki haft neinar ábyrgðir á bak við. Þannig var þetta hrun. Menn fengu lánað í fjárfestingar langt umfram það sem þeir gátu nokkurn tíma verið borgunarmenn fyrir og það er búið að afskrifa það hjá þeim, þeir sluppu. Síðan er gengið fram af hörku gegn láglaunafólkinu.