144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að hlusta á orðaskipti hv. þingmanna hér. Það er augljóst að þeir eru mjög á hinum vinstri kanti stjórnmálanna og það er orðið svolítið síðan ég heyrði ræður af þessu tagi. Já, það fór bara um mann þegar maður heyrði þessar hugmyndir um efnahagslífið. En látum það liggja á milli hluta.

Hv. þingmaður nefndi að að sjálfsögðu ætti að halda áfram með auðlegðarskattinn. Hv. þingmaður veit að ríkisstjórnin hefur ekki hreyft við lögum um auðlegðarskatt, þau eru nákvæmlega eins og gengið var frá þeim af síðustu ríkisstjórn. Nú kom það skýrt fram hjá samflokksmanni hv. þingmanns, sem þá var hæstv. fjármálaráðherra, að ekki ætti að endurnýja auðlegðarskattinn. Við þekkjum það að hann leggst á eignir. Í svörum við spurningum, sem lagðar voru fram í þinginu, var sýnt fram á að það er oft fólk sem er með mjög lágar tekjur sem þarf að greiða hann, fólk sem hefur ekki getað verið í lífeyrissjóði — hæstv. síðasta ríkisstjórn sleppti hins vegar því fólki sem átti mikil lífeyrisréttindi, það var einn hópur eignamanna sem var tekinn út, sem á lífeyrisréttindi og þurfti ekki að greiða krónu af því. Það fólk sem gat ekki verið í lífeyrissjóði og var með einhvern sparnað, kannski í fasteign, og litlar sem engar tekjur þurfti að greiða þennan skatt.

Samfylkingin lofaði því mjög skýrt að endurnýja ekki skattinn. Nú kemur hv. þingmaður hingað upp og segir að það sé algjörlega sjálfsagt og eðlilegt að framlengja hann. Ég bara velti því fyrir mér: Af hverju voruð þið að segja þetta fyrir síðustu kosningar, að þið ætluðuð ekki að endurnýja skattinn með þeim rökum sem hæstv. ráðherra flutti á þeim tíma, ef aldrei stóð til að efna það loforð?