144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi þá gleður það mig að ég skuli hafa flutt hér ræðu sem vakti upp gamla pólitík. Það sem ég var að vitna í er ný skýrsla, samkvæmt fréttum á visir.is í dag, frá OECD um hvernig þessi brauðmolakenning virkar á hagvöxt. Það gladdi mig að sjá þetta vegna þess að ég hef haldið þessu fram í langan tíma. Í framhaldi af hruninu var mikið fjallað um þetta, það sem gerðist til dæmis í Bandaríkjunum, það hefur sýnt sig að þeir sem voru að draga til sín mikið fé, það skilaði sér ekki út í samfélagið. Það var dregið undan og flutt og farið með það í fjárfestingar í öðrum löndum.

Hvað er mikið í skattaskjólinu hjá okkur, sem ekki skilaði sér til þeirra sem voru að vinna á gólfinu og bjuggu til hagnaðinn hjá viðkomandi aðilum og hefur aldrei komið í vasa launafólks? Við þurfum að ræða þessi prinsippatriði vegna þess að þau skipta miklu máli. Stefna nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi er byggð á brauðmolakenningunni.

Varðandi auðlegðarskattinn þá hef ég líka lært það hér í þinginu að sá sem verstur er í því að túlka stefnu Samfylkingarinnar er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Það var aldrei lagt fram að auðlegðarskattinn ætti að leggja af í aðdraganda síðustu kosninga. Það er alveg hárrétt að fyrrverandi fjármálaráðherra sagði að hann yrði ekki lagður á óbreyttur. Ég tel að mjög eðlilegt hefði verið að breyta ákveðnum viðmiðum þar.

Aftur kemur að því að við höfum samúð með einstaklingum sem eiga 75–80 millj. kr. í hreina eign í húsnæði — ef um hjón er að ræða var miðað við 110–120 millj. kr. Á sama tíma og við lækkum skattana á þessum hópi um 10 milljarða — Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD hafa verið að ráðleggja okkur að leita á þennan hóp frekar en þá fátæku — höfum við ekki efni á að setja hálfan milljarð, sem hugsanlega hefði verið eitthvað umfram verðbólgu, til öryrkja og annarra lífeyrisþega.